Sunday, November 15, 2009

Skjól

Í gærkvöldi fóru fram vel heppnaðir og skemmtilegir styrktar- og baráttutónleikar fyrir flóttamenn á Íslandi. Fór viðburðurinn fram á Grand Rokk undir yfirskriftinni "Skjól", en það er einnig heitið á lögfræðisjóð sem verið er að koma upp hér til aðstoðar þeim flóttamönnum sem hingað leita. Dagskráin hófst á ljóðaupplestraröð frá félaginu Nýhil. Meðal skálda sem lásu þarna upp voru Arngrímur Vídalín Stefánsson, Hildur Lilliendal, Jón Bjarki Magnússon, Ingólfur Gíslason, Kári Páll Óskarsson, Jón Örn Loðmfjörð og Haukur Hilmarsson (þar sem ég skrifa þetta eftir minni, tiltölulega lítið sofinn, er hætta á að ég sé að gleyma einhverjum, ef svo er biðst ég fyrirfram afsökunar fyrir hönd sósíalistahreyfingarinnar). Elyas Sultani frá Afganistan lauk svo þessum fyrsta dagskrárlið viðburðarins með því að lesa frumsamið ljóð á móðurmáli sínu. Þau Haukur Hilmarsson og Kitty Anderson, aktívistar í flóttamannahreyfinguni, stigu stöku sinnum á svið milli atriða og héldu barátturæður. Meðal tónlistarmanna sem fram komu um kvöldið voru þeir bræður Blaz Roca og Sesar A, Thugs on Parole, DJ Kocoon, Pedro Pílatus, Retro Stefsson, Skelkur í Bringu og Bárujárn. Eins og áður sagði heppnuðust þessir tónleikar með miklum ágætum. Um er að ræða gott framtak í þágu málefnis sem nauðsynlegt er fyrir okkur að taka föstum tökum. Flóttamannahreyfingin er ung hreyfing hér á Íslandi en þróun hennar hefur verið hröð á hennar stutta líftíma. Hana þurfum við að efla og er sú vísa ekki of oft kveðin að fleira fólk þarf að ná inn í baráttuna fyrir mannréttindum flóttafólks. Við í Sósíalísku Réttlæti teljum a.m.k. að sem flesta krafta þurfi að virkja í þessari baráttu. Það er sorgleg staðreynd að litlar sem engar áþreyfanlegar stefnubreytingar hafa orðið hjá ríkisstjórninni sem nú situr, frá þeirri stefnu sem hér hefur alltaf verið rekin í málefnum flóttafólks. Mannréttinda- og mannúðarsjónarmið ráða hér ekki för heldur er allt kapp lagt á að senda fólk sem hingað leitar úr landi sem fyrst, þess vegna út í opinn dauðan. Á meðan svo er skiptir litlu hvort ríkisstjórn kennir sig við "vinstri" eða "félagshyggju", eða eitthvað annað. Eins og við vitum þó vinnast engir sigrar án markvissrar baráttu. Í samfélagi þar sem réttur auðmagnsins til ávöxtunar hefur forgang umfram allt annað, kosta einfölldustu og sjálfsögðustu mannréttindi þrotlausa baráttu.
- S.J.K.

No comments:

Post a Comment