Friday, June 12, 2009

Um erindi Peter Hallward

Í gær flutti breski heimspekingurinn og bókmenntafræðingurinn Peter Hallward erindi í Odda, Háskóla Íslands. Þema erindis hans var pólitískur vilji, eða hvaða merkingu leggja mætti í hugtakið og hvers vegna það væri mikilvægt í stjórnmálabaráttu líðandi stundar. Til að skýra hvaða merkingu ætti að leggja í hugtakið fór Hallward yfir skilgreiningar jafn ólíkra hugsuða og Jean- Jacques Rousseau til Frantz Fanon. Hann dvaldi einnig nokkuð við skilning Jakobínanna og annara þátttakenda í frönsku byltingunni á pólitískum vilja, og skoðaði einnig í því samhengi þrælauppreisnina á Haítí og sjálfstæðisbaráttu landsins, en Hallward hefur mikið fengist við eftirlendufræði. Hann tók einnig fyrir gagnrýni Marxismans á fulltrúalýðræði, sem og hugmyndir bæði Lenin og Che Guevara um almannavilja. Það er algeng ranghugmynd að Lenin hafi verið elítisti sem aðhylltist að lítil menntamannaklíka tæki völdin "í þágu alþýðunnar". Þvert á móti varð Lenin sífellt gagnrýnni á slíkar hugmyndir með árunum. Hallward fór einnig á sannfærandi hátt yfir þær aðferðir sem ráðandi öfl nota til að friðþægja fjöldan og draga úr honum bæði baráttukjark og trú á eigin getu til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Meginniðurstaða erindis Hallward var að verkefnið fælist í að endurvekja trú fólks á getu þess til að hafa áhrif á umhverfi sitt og virkja það í baráttunni fyrir hagsmunum sínum og réttlátara samfélagi. Peter Hallward er skýr og skilmerkilegur fyrirlesari og var erindi hans ánægjulegt og upplífgandi á að hlýða.
-S.J.K.

Thursday, June 11, 2009

Flóttamenn hugsanlega sendir til Grikklands.

Dómsmálaráðuneytið hefur nú ákveðið að byrja aftur að senda flóttamenn sem hér eru staddir til Grikklands. Kemur fram að sú ákvörðun sé tekin á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins. Í nýlegri skýrslu sem unnin var á vegum dómsmálaráðuneytisins kemur m.a. fram um aðstæður í Grikklandi:

Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 15. apríl 2008 er gerð grein fyrir afstöðu stofnunarinnar til endursendinga til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í skýrslunni er lýst áhyggjum af stöðu hælismála í Grikklandi og þeim aðstæðum sem hælisleitendur þar í landi búa við. Í grófum dráttum má skipta athugasemdum stofnunarinnar í þrennt. Í fyrsta lagi er talið að aðgangur hælisleitenda að hælisumsóknarkerfinu sé ekki nægilega vel tryggður. Í öðru lagi eru gerðar athugasemdir við afgreiðslu grískra yfirvalda á umsóknum um hæli, áfrýjunarmöguleika og málsmeðferðartíma. Í þriðja lagi eru gerðar athugasemdir við aðstæður hælisleitenda í Grikklandi. Í skýrslunni er jafnframt vísað til þess að grísk yfirvöld hafi gripið til aðgerða í því skyni að efla hælisumsóknakerfi sitt í samræmi við alþjóðlegar og evrópskar kröfur og að stofnunin hafi og muni leitast við að aðstoða grísk yfirvöld í þeim efnum.
Með hliðsjón af þeim annmörkum sem stofnunin telur vera á gríska hælisumsóknakerfinu hvetur hún aðildarríkin til þess að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og til að nýta sér heimild 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar til að taka til meðferðar umsókn um hæli jafnvel þótt viðkomandi ríki beri ekki ábyrgð á umsókninni.
Þar sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið þarf nú að taka afstöðu til endursendingar hælisleitenda til Grikklands var beint fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um hvort sú afstaða sem fram kemur í ofangreindri skýrslu hafi tekið einhverjum breytingum. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. mars 2009, kemur fram að afstaða hennar hafi ekki breyst. Hins vegar er tekið fram að grísk yfirvöld hafi stigið fjölda mikilvægra skerfa til að styrkja hælisleitendakerfi sitt þannig að það sé í samræmi við alþjóðlega og evrópska staðla og aukið samstarf sitt við stofnunina. Meðal annars hafi gríska ríkið sett reglur sem innleiði fyrrgreindar tilskipanir Evrópubandalagsins um hælismál og sett á fót vinnuhóp í samstarfi við stofnunina til að endurskoða kerfið. Þá var tekið fram að fulltrúar stofnunarinnar og gríska innanríkismálaráðuneytisins hefðu farið í vettvangsferð í september 2008 sem hafi leitt til fjölda tillagna um breytingar á hælisumsóknakerfinu. Sé vonast til þess að aðgerðaáætlun í þessu skyni verði bráðlega samþykkt. Þrátt fyrir þessi jákvæðu skref telur stofnunin að þörf sé að ýmsum breytingum, einkum hvað varðar meðferð hælisumsókna og aðstæður hælisleitenda, áður en hún geti breytt þeirri
afstöðu sinni til endursendingar hælisleitenda sem fram kemur í skýrslu hennar frá 15. apríl 2008.


Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Thomas Hammarberg, kannaði aðstæður hælisleitenda í Grikklandi í heimsókn sinni til landsins 8. – 10. desember 2008.
Í skýrslunni sem er frá 4. febrúar 2009 er fjallað ítarlega um aðstæður hælisleitenda þar í landi og sjö sérstakir efnisþættir teknir til skoðunar. Mannréttindafulltrúinn fagnar jákvæðri þróun löggjafar í Grikklandi á sviði hælismála og innleiðingu tilskipana Evrópubandalagsins í grískan rétt. Þá er því lýst í skýrslunni að í samtölum við mannréttindafulltrúann hafi grísk yfirvöld lýst yfir vilja til að bæta hælisumsóknakerfið og tryggja að það sé í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í samningum Evrópuráðsins.
Það er útskýrt í skýrslunni að aukning hælisumsókna sem berast grískum yfirvöldum hafi verið gífurleg síðastliðin fjögur ár og lagt þungar fjárhagslegar byrðar á Grikkland. Mannréttindafulltrúinn tekur undir margt sem fram kemur í ofangreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 15. apríl 2008 og gerir margvíslegar athugasemdir við meðferð hælisumsókna og aðstæður hælisleitenda í Grikklandi. Þá eru grísk yfirvöld hvött til að koma á fót skilvirkri aðgerðaáætlun í því skyni að ná fram úrbótum á þessu sviði og ýmsar sértækar tillögur settar fram.
Rétt er að taka fram að Grikkland skilaði athugasemdum vegna skýrslunnar þar sem sjónarmið ríkisins eru sett fram. Þar er meðal annars vísað til þeirra breytinga sem urðu á grískri löggjöf á sviði hælismála árin 2007 og 2008 og þess markmiðs laganna að tryggja ótakmarkaðan aðgang að hælisumsóknakerfinu. Jafnframt er vísað til þess að tilskipanir Evrópubandalagsins nr. 2005/85/EB og 2003/9/EB sem ætlað er að tryggja lágmarkskröfur til afgreiðslu hælisumsókna og aðstæðna hælisleitenda hafi verið innleiddar í grískan rétt. Þá eru sértækar úrbætur sem grísk yfirvöld hafa gripið til á þessu sviði taldar upp í átta öðrum liðum.


Því hefur verið fleygt fram hér á landi að vegna þeirrar efnahagskreppu sem fjármálaauðvaldið kom landinu í geti íslendingar ekki tekið við flóttafólki. Þetta er fyrirsláttur af verstu sort því á gróðæristímanum fengu ekki fleiri flóttamenn hæli hér heldur en nú. Margir þeirra flóttamanna sem hér eru staddir hafa dvalið í flóttamannabúðurm á Grikklandi og er sú reynsla allt annað en góð. Eins og segir í skýrslunni hefur gríska stjórnkerfið ekki burði til að standa straum af hinni gífurlegu aukningu hælisumsókna, sem rekja má til þess að norður- og vestur evrópuríki mörg hver misnota Dyflinnarsamkomulagið til að koma vandanum yfir á aðra, þ.e. Grikki. Staðsetningar sinnar vegna er Grikkland oft fyrsta ríki Evrópu sem flóttamenn koma til. Íslensk stjórnvöld eiga að sjá sóma sinn í að leggja sitt að mörkum til að hjálpa fólki í neyð, í stað þeirrar eigingirni sem fellst í því að ætla að velta vandanum yfir á aðra. Vonbrigðin með ríkisstjórn svokallaðra vinstri flokka eru sár í þessum efnum. Ætli stjórn sem þykist standa fyrir jöfnuð og félagslegt réttlæti að sýna það í verki, væri gott fyrir hana að breyta stefnunni í málefnum hælisleitenda.

skýrsluna má lesa í heild sinni á: http://this.is/refugees/

Thursday, June 4, 2009

20 ár frá fjöldamorðunum á Torgi hins Himneska Friðar: Baráttan heldur áfram!

-Ríkisstjórn Kína óttast fjöldabaráttu-
Tuttugu ára afmæli fjöldahreyfingarinnar sem lauk með fjöldamorðunum í Peking sýnir að arfleið baráttu þeirrar hreyfingar lifir í Kína og Hong Kong. Þrátt fyrir viðleitni kínverskra valdhafa til að eyða allri almennri umræðu um atburðina og eyða „4,6.“ úr sögunni, er ný kynslóð að vakna til vitundar um mikilvægi atburða ársins 1989. Stærsta minningarganga um fórnarlömb fjöldamorðanna sem farið hefur fram í Hong Kong í 15 ár, skapar hvetjandi fordæmi fyrir áframhaldandi baráttu fyrir lýðræðislegum réttindum í Kína.
Hin glæsilega hreyfing námsmanna og verkafólks náði til 100 borga í landinu árið 1989, færði milljónir manna út á göturnar, verkafólk skipulagði verkföll með kröfum um lýðræðisleg réttindi, og í tíu daga stóð yfir uppreisn innan hersins. Það er enginn furða að kínverskir ráðamenn neiti að viðurkenna þessa hreyfingu- sem þróaðist yfir í byltingarsinnaða hreyfingu sem var nálægt því að steypa hinni spilltu einræðisstjórn hins svokallaða „kommúnista“ flokks. Sérstaklega var stofnun sjálfstæðra verkalýðsfélaga í lok maí 1989, hvati fyrir Deng Xiaoping til að brjóta hreyfinguna á bak aftur með valdi. Deng dró með blóði línu sem verkafólk, stúdentar og jafnvel andstöðuöfl innan flokksins skyldu ekki voga sér að fara yfir. Eins og Deng lýsti sjálfur yfir, var hann tilbúinn til að myrða 200 þúsund manns ef það færði landinu 20 ár af stöðugleika.
-Enginn samhljómur, enginn jöfnuður!-
Þessi barátta- gegn flokkseinræði og ofbeldisfullu ríkisvaldi- stendur enn yfir í dag. Á valdatíma Deng, var „markaðsvæðingu“ kínversks efnahagslífs hrint í framkvæmd, sem hefur gert Kína að einu mesta ójafnaðarsamfélagi jarðar. Aðeins 1,5 milljón fjölskildna, eða 0,4% af íbúum landsins, á 70% af auðævum Kína í dag. Á sama tíma lifa 248 milljónir Kínverja við örbirgð. Kína var aldrei sú „Paradís Verkamanna“, sem hin gamla stjórn Maóista hélt fram að það væri, en í dag er landið tvímælalaust helvíti á jörðu fyrir verkafólk landsins, sérstaklega þær 100 milljónir sem starfa í „blóð og svita“ verksmiðjunum á ömurlegum kjörum og með nánast engan frítíma. En hvað með lýðræðið? Þeir sem halda að markaðurinn (auðvaldið) og lýðræði fari saman eins og hanski á hönd eiga erfitt með að útskýra hvað gerst hefur í Kína. Hvers vegna „kínverska módelið“- þar sem verkalýðsfélög og öll sjálfstæð samtök eru brotin á bak aftur með valdi- er svona vinsælt hjá fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum. Þau taka það fram yfir lönd þar sem lýðræðisleg réttindi, réttindi vinnandi fólks og mannsæmandi launakjör, eru til staðar. Þrátt fyrir að Kína sé kapítalískara, er það ólýðræðislegra en það var á níunda áratugnum. „Kína er orðið að loftþéttum járnklefa“, samkvæmt Tiananmen mæðra baráttuhópnum, sem var gert að yfirgefa Peking fyrir 4. Júní. Engar minningarathafnir eru liðnar á meginlandinu, og jafnvel boð um að klæðast hvítu sem leið til þögulla mótmæla, hafa orðið til þess að stjórnvöld hafa hótað refsiaðgerðum. Handtökur og ofsóknir gagnvart stjórnarandstæðingum eru umfangsmeiri í dag en á meðan Ólympíuleikunum stóð. Hin þungi armur kínverska ríkisins er studdur af mörgum stærstu fjölþjóðafyrirtækjum heims, eins og Microsoft, Cisco, og Yahoo, sem sjá kínversku lögreglunni fyrir fullkomnasta ritskoðunarbúnaði sem völ er á, til að kæfa skoðanaskipti á netinu. Með hjálp Wall Street hefur kínverska ríkið orðið „fágaðra“ í kúgun sinni en alveg jafn vægðarlaust. Allt tal um stöðugleika í Kína eru tálsýnir. Í landinu fara fram um 600 fjöldaóeirðir á dag. Vinnudeilur jukust um 98% á síðasta ári. Mál hinnar 21 árs gömlu Deng Yujiao, sem stakk embættismann til bana sem reyndi að nauðga henni, undirstrika hversu hötuð yfirvöld eru í Kína. Gríðarlegur stuðningur við Deng var sjáanlegur a netinu þar til yfirvöld skrúfuðu fyrir aðgang að internetinu því þau óttuðust götumótmæli. Í tilfellum sem þessum má vísi að nýrri 1989 hreyfingu. Því lengur sem stjórnvöld í Kína herða tökin, þeim mun meira aukast líkurnar á samfélagslegum mikla hvell. Allt tal um að Kínverjar þurfi „styrka stjórn“ eða séu „ekki tilbúnir fyrir lýðræði“ sýnir aðeins fyrirlitningu elítunnar á almenningi. Til að heiðra minningu þeirra sem létust fyrir 20 árum þarf að skipuleggja nýja fjöldabaráttu fyrir breyttu samfélagi. Eins og Joe Hill sagði réttilega, „Ekki syrgja, skipuleggið ykkur!“

-Um er að ræða þýðingu á hluta úr grein sem birtist á chinaworker.info, fimmtudaginn 4. júní '09.