Wednesday, November 4, 2009

Flokksþing RS í Stokkhólmi.

Síðastliðinna helgi sótti greinarhöfundur flokksþing Rattvisepartiet-Socialisterna (nafnið mætti þýða sem Sósíalíski Réttlætisflokkurinn) í Stokkhólmi. Var það bæði hressandi og fróðlegt. Það er mjög lærdómsríkt að fá innsýn í hvernig skipulaggður, alvöru sósíalistaflokkur starfar, sérstaklega fyrir ungan mann sem hefur enga reynslu af starfi Marxískrar hreyfingar nema í mýflugumynd. Þingið stóð yfir í þrjá daga, frá föstudegi til sunnudags. Var fundað frá kl. 9 á morgnanna og fram á kvöld, nema á sunnudaginn þegar þinginu var slitið um hádegisbilið á viðeigandi hátt, þ.e. sungu Internationalinn. Í fyrstu málstofunni var rætt um hina alþjóðlegu fjármálakreppu, mismunandi birtingarmyndir hennar í ólíkum löndum, allt frá Svíþjóð og Bretlandi til Suður Afríku og Nígeríu. Hélt greinarhöfundur stutt innslag um kreppuna og pólitíska landslagið á Íslandi í þeirri málstofu. Mikil umræða fór fram um hvernig verkafólk af erlendum uppruna fer sérstaklega illa út úr kreppunni í V- Evrópu. Það hefur unnið lægst launuðu störfin, er jafnvel fyrst til að missa vinnuna og er yfirleitt mismunað eða hundsað af stéttarfélögum. Síðar fór fram lífleg umræða um málefni samkynhneygðra. RS í Svíþjóð hefur látið sig þau mál mikið varða og innan flokksins starfar hópur samkynhneygðra sósíalista. Fyrir þinginu lá ályktun um stefnu og sjónarmið í þessum málaflokki. Meðal þess sem löggð var áhersla á í þeim umræðum var nauðsyn baráttu gegn hatursglæpum og hvernig jafnréttissinnuð lagasetning ein og sér sé ekki nægileg. Staðan er sú á vesturlöndum í dag að eini hópurinn sem getur "komið út úr skápnum" er fólk úr efri millistéttum, fjölmiðlafólk, tónlistarmenn (þ.e. frægir og vel stæðir) o.s.frv. Mun erfiðara er fyrir fólk úr launþegastéttum að opinbera kynhneygð sína, það verður frekar fyrir fordómum og aðkasti, jafnvel frá fulltrúum stéttarfélaga. Veldur þetta oft einangrun þessara einstaklinga, þau upplifa sig jafnvel ein og yfirgefin. Um er að ræða grafalvarlega brotalöm samfélagsins, sem sýnir sig m.a. í því hversu há sjálfsvígstíðni er meðal ungra samkynhneygðra. Skoðanaskiptin um þessa tillögu voru lífleg. Nokkrir félagar voru ósammála, töldu tillöguna einkennast af "hugsjónamennsku" (ídealisma) og hana skorta stéttabaráttusjónarmið. Fannst þeim sem hér ritar sjónarmið þessara félaga oft einkennast af hálfgerðum dólga- marxisma. Hvað sem því lýður var ánægjulegt að sjá að pláss er fyrir skoðanaágreining innan flokksins. Síðasta málstofa föstudagsins var um umhverfis- og loftslagsmál. Þar voru Þrír framsögumenn. Var fyrst um að ræða kynningu á loftslagsmálaráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember, og þeim helstu grasrótaraðgerðum sem þar verða skipulaggðar. RS kemur til með að senda fólk á þá ráðstefnu. Félagi Arne Johansson flutti innlegg um þá vá sem vofir yfir lífríki okkar verði ekkert að gert, innihélt það erindi stóran skammt af ógnvænlegum upplýsingum og tölfræði. Claire Doyle frá Sósíalistaflokki Englands og Wales (Bretlandsdeild CWI) flutti flotta ræðu þess efnis að lífríki okkar þoldi ekki til lengri tíma sóun og rányrkju kapítalismans á auðlinum jarðar, eða þá mengun sem henni fylgja. Lýðræðislegur sósíalismi þyrfti að leysa kapítalismann af hólmi. Sá skrifræðislegi áætlunarbúskapur sem stundaður var í Austur Evrópu, Kína o.s.frv. hefði ekki síður reynst lífríkinu skaðlegur og kapítalisminn. Eru ástæður þess að finna í þeim skorti á lýðræði sem þar ríkti auk þess sem efnahag þeirra landa var stjórnað af skrifræðisklíku sem þurfti ekki að bera neina ábyrgð gagnvart almenningi. Laugardagurinn hófst á málstofu um efnahagsmál og málefni launafólks í Svíþjóð. Um þessar mundir vex atvinnuleysir hratt þar í landi. Í Svíþjóð er auðvelldara að reka fólk en í flestum löndum V- Evrópu. Talað er jafnvel um að atvinnuöryggi sé minna aðeins í Bretlandi og Danmörku sé horft til V- Evrópu. Bitnar það sérstaklega á ungu launafólki, sem nýtur takmarkaðri réttinda á vinnumarkaði. Atvinnuleysisbætur höfðu sömuleiðis verið lækkaðar áður en kreppan skall á auk þess sem reglur um úthlutun atvinnuleysisbóta hafa verið þrengdar.Svíþjóð hefur undanfarið verið að þróast meira í áttina að láglaunamarkaði. Þróun kreppan hefur hraðað talsvert. Fólk sem missir ágætlega borguð störf t.d. í bílaiðnaði stendur oft eingöngu til boða illa borguð störf hjá skyndibitakeðjum. Verkamönnum af erlendum uppruna er bæði mismunað á vinnumarkaðnum og í velferðarkerfinu. Þeir fá almennt takmarkaðri og lakari aðstoð en aðrir sem þurfa að leyta á náðir velferðarkerfisins sökum atvinnumissis eða veikinda. Einnig hefur verið þrengt meira að hælisleytendum í Svíþjóð eftir að kreppan skall á. Ekki veit ég hvort þetta er það norræna velferðarsamfélag sem Steingrímur J. Sigfússon og forysta VG, telur sig ætla að koma hér á undir stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Allavega sýnir stefna þeirra í ríkisstjórninni að svo sé. Að þeirri málstofu lokinni voru málefni flokksins rædd, bæði innra skipulag og starfsemi þeirra útávið. Var þar farið yfir starf flokksins í kjarabaráttu, baráttu gegn rasisma, fyrir réttindum flóttamanna og réttindum samkynhneygðra svo eitthvað sé nefnt. Sat ég málstofu um hvernig sé best að ná til ungs fólks. Var þar löggð áhersla á reglulega virkni, vera sýnileg og mikilvægi þess að leggja áherslu á sjálfstæði og virkni félaga. Sósíalískur flokkur þarf á öflugri og virkri grasrót að halda þar sem hin almenni meðlimur tekur frumkvæði. Meðal baráttumála sem aðvellt hefur verið að ná til ungs fólks í gegn um er barátta gegn rasisma, fyrir réttindum flóttamanna, femínismi/kynjapólitík og réttindi samkynhneygðra. Einnig er mikilvægt að vera virk og sýnileg í skólum og á vinnustöðum. Útbreiða þarf skilning meðal fólks að í gegn um baráttuna geta allir haft áhrif. Samræmi þarf líka að vera milli þess sem við segjum og þess sem við gerum. Eftir kvöldmatarhlé fór fram umræða um reynsluna af framboði til Evrópuþingsins, sem RS stóð fyrir ásamt Sósíalistaflokknum (deild 4. alþjóðasambandsins í Svíþjóð) og nokkrum forystumönnum úr stéttarfélagi námuverkamanna. Voru um málið skiptar skoðanir. Sumir vildu meina að þetta framtak hefði haft lítið að segja, meðan aðrir vildu meina að með þessu framboði hefði flokkurinn náð til fólks með sína pólitík á breiðari grundvelli. Lauk svo þinginu á laugardeginum með yfirferð yfir fjármál flokksins. Á sunnudeginum fór fram umræða um alþjóðamál og þá sérstaklega starfsemi CWI í hinum ýmsu löndum. Var þar fjallað um baráttu stúdenta í Austurríki, Frakklandi og Belgíu fyrir breytingum á skólakerfinu, verkfallsbaráttu í ýmsum löndum og baráttuna í löndum rómönsku ameríku, svo eitthvað sé nefnt. Eins og áður sagði var þetta þing mikil vítamínsprauta fyrir þann sem hér ritar. Verkefni okkar hér á Íslandi er núna að byggja upp virka og baráttuglaða sósíalistahreyfingu sem hefur skýra sýn og er í alþjóðlegum tengslum.

No comments:

Post a Comment