Friday, July 24, 2009

Rauðir dagar í Reykjavík og andstaðan gegn ESB aðild.

Nú standa yfir Rauðir dagar í Reykjavík á vegum Rauðs vettfangs. Fyrsti dagskrárliður þeirra fór fram í gærkvöldi, en var þar um að ræða fund gegn ESB aðild undir yfirskriftinni "ESB? Nei takk." Var fundurinn haldinn í MÍR salnum á Hverfisgötu. Framsögumenn voru þau Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og stjórnarmaður í Heimssýn, og Mona Jensen, sem er meðlimur í dönsku alþýðuhreyfingunni gegn ESB og ritstjóri dagblaðsins Arbejderen, sem gefið er út af Kommunistisk parti í Danmörku. Fóru svo fram umræður að loknum framsögum þeirra. Talaði Mona um reynslu Dana af ESB aðild og um ástæður þess að Íslendingar ættu að hafna slíkri aðild. Frá 1974 hafa sífellt fleiri og stærri ákvarðanir um innanríkismál Danmerkur verið teknar í Brussel. Danska þingið hefur því sífellt verið að færast nær því að vera stimpill fyrir tilskipanir Evrópusambandsins. Hún hrakti mýtuna um ESB sem einhvert friðarpróject, með því að tala um hinar sameiginlegu varnir sem Lisbon sáttmálin kveður á um og framkvæmd þeirra, en í dag býr Evrópusambandið yfir 60.000 hermönnum og er með bardagasveitir á sínum snærum sem notaðar hafa verið í íhlutanir í Afríku á vegum sambandsins. Með inngöngu í ESB göngumst við inn á Lisbon sáttmálan eins og hann leggur sig. Evrópusambandið sé ekki einhvert hlaðborð þar sem hver og einn getur valið það sem hann vill. Páll fór í erindi sínu aðeins sögulega yfir stofnun ESB, út frá því hvernig sambandið hefði verið stofnað í kjölfar heimstyrjaldanna til að samræma viðskiptahagsmuni Þjóðverja og Frakka, og tryggja þannig frið í Evrópu meðal annars. Ákvarðanir sem teknar væru í Brussel tækju síður en svo tillit til aðstæðna í hverju landi, og væri því fáránlegt að ætla að það kæmi íslendingum til góða að ætla að færa ákvörðunarvaldið yfir sínum málum til Brussel.
Öflugustu áhrifavaldarnir og þrýstihóparnir á stefnu ESB eru stórfyrirtæki og evrópskt einokunarauðvald. Þar viðgengst hin versta sort jafnaðarstefnu sem hugsast getur, þ.e. jafnaðarstefna "frjálshyggjunar" og hægri jafnaðarmanna Samfylkingarinnar. Sú jafnaðarstefna er að jafna lífskjör Vestur- og Norður evrópsks verkafólks niður á við á hið sama plan og það gerist lakast í Suður- og Austur evrópu. Slíkar kjaraskerðingar eru réttlættar með frösum um samkeppnishæfni. Þannig er eining hinnar evrópsku verkalýðsstéttar klofin einokunarauðhringjum í hag, í stað þess að verkafólk evrópu stilli saman strengi sína í baráttu fyrir bættum kjörum þvert á landamæri, og verkafólk landa Suður- og Austur evrópu myndi í sameiningu með stéttabræðrum sínum vestar í álfuni berjast fyrir kjörum á við það sem gerist meðal betur settra verkamanna álfunnar.
Í kvöld verður svo fundur á vegum Rauðs Vettfangs í Friðarhúsi kl. 20: 00, í Friðarhúsi. Umræðuefnið er "Leiðin út úr kreppu auðvaldsins og uppbygging byltingarhreyfingar". Framsögumenn verða þeir Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson, félagar í Rauðum Vettfangi.
Á mogun (lau. 25 júlí) mun svo fara fram útifundur á Austurvelli kl. 15: 00 gegn ESB aðild og Icesafe samkomulaginu. Kl. 17:00 sama dag verður svo hugmyndasmiðja, kvöldverður og menningardagskrá á vegum Rauðs Vettfangs.