Thursday, June 11, 2009

Flóttamenn hugsanlega sendir til Grikklands.

Dómsmálaráðuneytið hefur nú ákveðið að byrja aftur að senda flóttamenn sem hér eru staddir til Grikklands. Kemur fram að sú ákvörðun sé tekin á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins. Í nýlegri skýrslu sem unnin var á vegum dómsmálaráðuneytisins kemur m.a. fram um aðstæður í Grikklandi:

Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 15. apríl 2008 er gerð grein fyrir afstöðu stofnunarinnar til endursendinga til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í skýrslunni er lýst áhyggjum af stöðu hælismála í Grikklandi og þeim aðstæðum sem hælisleitendur þar í landi búa við. Í grófum dráttum má skipta athugasemdum stofnunarinnar í þrennt. Í fyrsta lagi er talið að aðgangur hælisleitenda að hælisumsóknarkerfinu sé ekki nægilega vel tryggður. Í öðru lagi eru gerðar athugasemdir við afgreiðslu grískra yfirvalda á umsóknum um hæli, áfrýjunarmöguleika og málsmeðferðartíma. Í þriðja lagi eru gerðar athugasemdir við aðstæður hælisleitenda í Grikklandi. Í skýrslunni er jafnframt vísað til þess að grísk yfirvöld hafi gripið til aðgerða í því skyni að efla hælisumsóknakerfi sitt í samræmi við alþjóðlegar og evrópskar kröfur og að stofnunin hafi og muni leitast við að aðstoða grísk yfirvöld í þeim efnum.
Með hliðsjón af þeim annmörkum sem stofnunin telur vera á gríska hælisumsóknakerfinu hvetur hún aðildarríkin til þess að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og til að nýta sér heimild 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar til að taka til meðferðar umsókn um hæli jafnvel þótt viðkomandi ríki beri ekki ábyrgð á umsókninni.
Þar sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið þarf nú að taka afstöðu til endursendingar hælisleitenda til Grikklands var beint fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um hvort sú afstaða sem fram kemur í ofangreindri skýrslu hafi tekið einhverjum breytingum. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. mars 2009, kemur fram að afstaða hennar hafi ekki breyst. Hins vegar er tekið fram að grísk yfirvöld hafi stigið fjölda mikilvægra skerfa til að styrkja hælisleitendakerfi sitt þannig að það sé í samræmi við alþjóðlega og evrópska staðla og aukið samstarf sitt við stofnunina. Meðal annars hafi gríska ríkið sett reglur sem innleiði fyrrgreindar tilskipanir Evrópubandalagsins um hælismál og sett á fót vinnuhóp í samstarfi við stofnunina til að endurskoða kerfið. Þá var tekið fram að fulltrúar stofnunarinnar og gríska innanríkismálaráðuneytisins hefðu farið í vettvangsferð í september 2008 sem hafi leitt til fjölda tillagna um breytingar á hælisumsóknakerfinu. Sé vonast til þess að aðgerðaáætlun í þessu skyni verði bráðlega samþykkt. Þrátt fyrir þessi jákvæðu skref telur stofnunin að þörf sé að ýmsum breytingum, einkum hvað varðar meðferð hælisumsókna og aðstæður hælisleitenda, áður en hún geti breytt þeirri
afstöðu sinni til endursendingar hælisleitenda sem fram kemur í skýrslu hennar frá 15. apríl 2008.


Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Thomas Hammarberg, kannaði aðstæður hælisleitenda í Grikklandi í heimsókn sinni til landsins 8. – 10. desember 2008.
Í skýrslunni sem er frá 4. febrúar 2009 er fjallað ítarlega um aðstæður hælisleitenda þar í landi og sjö sérstakir efnisþættir teknir til skoðunar. Mannréttindafulltrúinn fagnar jákvæðri þróun löggjafar í Grikklandi á sviði hælismála og innleiðingu tilskipana Evrópubandalagsins í grískan rétt. Þá er því lýst í skýrslunni að í samtölum við mannréttindafulltrúann hafi grísk yfirvöld lýst yfir vilja til að bæta hælisumsóknakerfið og tryggja að það sé í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í samningum Evrópuráðsins.
Það er útskýrt í skýrslunni að aukning hælisumsókna sem berast grískum yfirvöldum hafi verið gífurleg síðastliðin fjögur ár og lagt þungar fjárhagslegar byrðar á Grikkland. Mannréttindafulltrúinn tekur undir margt sem fram kemur í ofangreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 15. apríl 2008 og gerir margvíslegar athugasemdir við meðferð hælisumsókna og aðstæður hælisleitenda í Grikklandi. Þá eru grísk yfirvöld hvött til að koma á fót skilvirkri aðgerðaáætlun í því skyni að ná fram úrbótum á þessu sviði og ýmsar sértækar tillögur settar fram.
Rétt er að taka fram að Grikkland skilaði athugasemdum vegna skýrslunnar þar sem sjónarmið ríkisins eru sett fram. Þar er meðal annars vísað til þeirra breytinga sem urðu á grískri löggjöf á sviði hælismála árin 2007 og 2008 og þess markmiðs laganna að tryggja ótakmarkaðan aðgang að hælisumsóknakerfinu. Jafnframt er vísað til þess að tilskipanir Evrópubandalagsins nr. 2005/85/EB og 2003/9/EB sem ætlað er að tryggja lágmarkskröfur til afgreiðslu hælisumsókna og aðstæðna hælisleitenda hafi verið innleiddar í grískan rétt. Þá eru sértækar úrbætur sem grísk yfirvöld hafa gripið til á þessu sviði taldar upp í átta öðrum liðum.


Því hefur verið fleygt fram hér á landi að vegna þeirrar efnahagskreppu sem fjármálaauðvaldið kom landinu í geti íslendingar ekki tekið við flóttafólki. Þetta er fyrirsláttur af verstu sort því á gróðæristímanum fengu ekki fleiri flóttamenn hæli hér heldur en nú. Margir þeirra flóttamanna sem hér eru staddir hafa dvalið í flóttamannabúðurm á Grikklandi og er sú reynsla allt annað en góð. Eins og segir í skýrslunni hefur gríska stjórnkerfið ekki burði til að standa straum af hinni gífurlegu aukningu hælisumsókna, sem rekja má til þess að norður- og vestur evrópuríki mörg hver misnota Dyflinnarsamkomulagið til að koma vandanum yfir á aðra, þ.e. Grikki. Staðsetningar sinnar vegna er Grikkland oft fyrsta ríki Evrópu sem flóttamenn koma til. Íslensk stjórnvöld eiga að sjá sóma sinn í að leggja sitt að mörkum til að hjálpa fólki í neyð, í stað þeirrar eigingirni sem fellst í því að ætla að velta vandanum yfir á aðra. Vonbrigðin með ríkisstjórn svokallaðra vinstri flokka eru sár í þessum efnum. Ætli stjórn sem þykist standa fyrir jöfnuð og félagslegt réttlæti að sýna það í verki, væri gott fyrir hana að breyta stefnunni í málefnum hælisleitenda.

skýrsluna má lesa í heild sinni á: http://this.is/refugees/

No comments:

Post a Comment