Thursday, May 28, 2009

ríkissjónvarpið kannski ekki lengur bláskjár.

Í gærkvöldi sýndi ríkissjónvarpið góða heimildarmynd eftir tíufréttir. Hún er þýsk, heitir Der große Ausverkauf og er frá árinu 2007. Myndin er eftir Florian nokkurn Opitz, og er þetta hans eina kvikmynd hingað til. Myndin skoðar afleyðingar af einkavæðingu og áhrifa hennar á líf einstaklinga. Nálguninn er þannig að skoðuð eru dæmi frá fjórum löndum. Afleiðingar einkavæðingar rafmagnsveitu eru skoðaðar í Soweto, Suður Afríku. Við fylgjumst þar með hvernig fátækir íbúar svæðisins eru útilokaðir frá notkun rafmagns í kjölfar einkavæðingarinnar, vegna mikillar hækkunar á kostnaði. En einnig fylgjumst við með andhófi íbúa svæðisins. Afleiðingar einkavæðingar lestarkerfisins í Bretlandi eru sömuleiðis skoðaðar, að miklu leyti út frá reynslu lestastjóra, sem hafa þurft að sætta sig við lægri laun, lengri vinnutíma og verri starfsskilyrði í kjölfar einkavæðingarinnar. Hinu fræga einkavæðingarhneyksli í Cochabamba, Bólivíu, er sömuleiðis gerð skil. Þar voru vatnsveiturnar eins og frægt er orðið seldar bandaríska auðhringnum Bechtel. Það leiddi til þess að stór hluti íbúanna hafði ekki aðgang að vatni, og var í ofanálag bannað að safna regnvatni. Með þrautsegri baráttu tókst alþýðu Cochabamba að fá þessa svívirðu dregna til baka, en sú barátta kostaði því miður mannslíf þar sem auðvaldsstjórnin lét hart mæta hörðu. Áhrifamesta og jafnframt mest sláandi frásögn myndarinnar er þó frá Filippseyjum. Í þeim hluta myndarinnar fylgjumst við með baráttu konu á miðjum aldri til að útvega nýrnaveikum syni sínum þá læknisaðstoð sem hann þarfnast. Heilbrigðisþjónusta Filippseyja var að miklu leyti einkavædd á tíunda áratugnum, sem hefur leitt til þess að fátækir íbúar landsins eru án heilbrigðisþjónustu. Samhliða þeirri þróun hafa risið dýrir einkaspítalar fyrir hina ríku, sjúkrahótel með tilheyrandi lúxus og dekri. Bæði í tilfelli Bólivíu og Filippseyja var þessi einkavæðing framkvæmd vegna þrýstings frá alþjóðastofnunum heimsauðvaldsins eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Myndin hefst á viðtalsbroti við Joseph Stiglitz, fyrrum aðalhagfræðings Alþjóðabankans. Hann kemur með áhrifamikinn punkt sem setur tóninn fyrir framhald myndarinnar, en þar ber hann saman þá efnahagsstefnu sem myndin ætlar sér að afhjúpa við nútíma hernað. Í umfjöllun um nútíma stríðsrekstur fáum við að vita allt um hernaðartaktíkina og alla þá tækni sem beitt er við að murka lífið úr fólki. Við getum meira að segja fengið að fylgjast með sprengjum falla yfir borgir fjarlægra landa í sjónvarpinu. Hins vegar fáum við minna að vita um allt það fólk sem lét lífið eða örkumlaðist af völdum stríðsrekstursins- það sama gildir um fórnarlömb Milton Friedmann hagfræðinnar.


No comments:

Post a Comment