Wednesday, May 27, 2009

Hardt og Negri

Í gærkvöldi fóru fram áhugaverðir fyrirlestrar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Félagið Níhil stendur um þessar mundir fyrir fyrirlestraröð, þar sem erlendir róttækir fræðimenn halda erindi. Sá fyrsti í þeirri fyrirlestraröð, sem ber yfirskriftina "Sagan er hafin á ný", samanstóð af erindum frá bandaríska bókmenntafræðingnum Michael Hardt og ítalska heimspekingnum og aktívistanum Antonio Negri. Voru erindi beggja hin áhugaverðustu. Hér mun ekki vera ráðist í neina kynningu á þessum ágætu fræðimönnum, en margir þekkja bókina "Empire" sem þeir skrifuðu saman. Erindi Hardt snérist um inntak kommúnismahugtaksins, en samkvæmt hans túlkun á kommúnisma felur það í sér sameign, sem andstæð sé bæði einkaeign og ríkiseign. Hann talaði um vanhæfni hins kapítalíska hagkerfis til að tryggja eignarhald yfir hugverkum og launa mönnum vinnu sem ekki væri efnisleg. Auðvaldskerfið hefði skapað sinn nýja banamann, sem í þessu tilfelli væru þær uppfinningar mannsins sem ekki er hægt að tryggja eignarrétt á. Antonio Negri fjallaði um í sínu erindi hvað fælist í því að vera kommúnisti í dag. Hann bennti réttilega á að sem kommúnisti væri maður andvígur ríkisvaldinu, og liti ekki á ríkiseign sem almenningseign. Nútíma ríkisvald er stéttavald, sem aldrei getur endurspeglað hagsmuni verkalýðs eða annarar alþýðu. Negri talaði sömuleiðis um að í stéttabaráttu nútímans þyrtir að losa sig við alla framvarðarsveitahugsun, því slíkur flokkur væri ekki alltaf í þeim tengslum við verkalýðsstéttina sem hann segðist vera, og talaði gjarnan máli hennar án þess að hafa umboð. Nánar verður fjallað um afstöðu okkar til framvarðarhugmyndina síðar á þessum vef. Þekktar eru hugmyndir Negri um upplausn þjóðríkisins vegna hinnar svokölluðu hnattvæðingar, þar sem lög þjóðríkisins nái ekki lengur utan um fjölþjóðleg stórfyrirtæki. Sósíalísku réttlæti þykir þó í kenningum Negri full mikið gert úr hinni svokölluðu hnattvæðingu. Ásýnd hins heimsvaldasinnaða kapítalisma hefur vissulega breyst þannig, að stórfyrirtæki spila stærra hlutverk en herir heimsvaldaríkjanna, þegar kemur að því að svegja efnahag snauðari landa undir sig. Þó eru landamæri þjóðríkja heldur betur staðreynd fyrir þá sem neyðast til að flýja heimalönd sín vegna átaka eða ofsókna. Um er að ræða formbreytingu en ekki eðlisbreytingu þar sem sama efnahagsaflið knýr hina svokölluðu hnattvæðingu áfram og kallað hefur á innrásir herja heimsvaldaríkja inn í vanþróuð lönd- auðmagnið.
-SJK

No comments:

Post a Comment