Thursday, May 7, 2009

Nokkur orð um stöðu hælisleitenda á íslandi

Á undanförnum mánuðum hefur ný hreyfing risið á Íslandi, hreyfing hælisleitenda.Á meðan hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar landsins voru uppteknir við að veiða atkvæði í aðdraganda kosninga, var lítið sem ekkert rætt um ömurlega stöðu hælisleitenda á Íslandi.Rúmlega 30 flóttamenn hafa beðið hér hugsanlegs brottflutnings til átakasvæða á borð við Írak, Afganistan og Kósovó. Í átökunum sem átt hafa sér stað í þessum þremur löndum, hefur íslenska ríkið tekið þátt, með svokölluðum friðargæsluliðum eða með öðrum stuðningi. Íhaldsstjórn Sjálfsstæðisflokksins studdi innrásirnar í Afganistan og Írak á sínum tíma, af sínum gamalkunna sleikjuskap við bandaríska heimsvaldastefnu. Sá stuðningur var réttlættur með ,,mannúðarsjónarmiðum“, eða að innrásirnar væru til þess gerðar að hjálpa íbúum þessara landa. Hver heilvita maður sér hins vegar að „hjálp“ er þarna rangnefni. Undanfarin 17 ár hefur 601 flóttamaður sótt um hæli á Íslandi. Af þeim hefur aðeins einn hlotið hæli. Aðeins 53 hafa hlotið tímabundin dvalarleyfi. Flóttamennirnir sem í dag bíða hugsanlegs brottflutnings, hafa beðið hér í 1.- 2. Ár. Þeir eru geymdir í niðurnýddu gistiheimili á Suðurnesjum. Á vefsíðu gistiheimilisins er meira segja staðhæft þess helsti kostur sé hversu stutt það sé frá Keflavíkurflugvelli, eða „aðeins 10 mínútna akstur“.Haft er eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, ritstjóra Stúdentablaðsins og einni af forsvarskonum hælisleitendahreyfingarinnar; „að flóttamennirnir hafi verið hér árum saman, en verið ósýnilegir- þeim hefur verið haldið fjarri Reykjavík, öllum fjölmiðlum og aktívistum. Það lýtur út fyrir að ríkisstjórnin hafi verið að reyna að fela þau, og viljað geyma þau þarna eins nálægt flugvellinum og mögulegt er.“ Hælisleitendurnir lifa á 2500 krónum á viku, sem er ekki einu sinni nóg fyrir rútuferðum til Reykjavíkur og til baka. Þeim er vanalega hvorki leyft að stunda vinnu né nám, auk þess að vera neitað um lágmarks heilbrigðisþjónustu. Hassan Akbari, sem flúði fótgangandi frá Afganistan, og gekk alla leið gegn um Pakistan, Íran, Azerbaijan, Tyrkland Rúmeníu, Búlgaríu og Grikkland, hefur nú búið á Íslandi í ár. Hann handleggsbrotnaði í Grikklandi í fyrra, og þarf á skurðaðgerð að halda en hefur ekki fengið neina læknisaðstoð á Íslandi. Slík framkoma af hálfu Íslenskra stjórnvalda er til skammar. Hræsni þeirra er botnlaus. Þeim þykir eðlilegt og sjálfsagt að íslenska fjármálaelítan kaupi upp fyrirtæki um allar jarðir. Þeim finnst það heilög skylda sín að vera klappstýrur bandarískrar heimsvaldastefnu á alþjóðavettfangi. Aftur á móti finnst þeim við hæfi að nýðast á fólki sem flýr heimalönd sín og leita hingað í neyð. Róttækar breytingar þurfa að eiga sér stað á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda og það strax.
M.B & S.J.K.

No comments:

Post a Comment