Thursday, May 28, 2009

ríkissjónvarpið kannski ekki lengur bláskjár.

Í gærkvöldi sýndi ríkissjónvarpið góða heimildarmynd eftir tíufréttir. Hún er þýsk, heitir Der große Ausverkauf og er frá árinu 2007. Myndin er eftir Florian nokkurn Opitz, og er þetta hans eina kvikmynd hingað til. Myndin skoðar afleyðingar af einkavæðingu og áhrifa hennar á líf einstaklinga. Nálguninn er þannig að skoðuð eru dæmi frá fjórum löndum. Afleiðingar einkavæðingar rafmagnsveitu eru skoðaðar í Soweto, Suður Afríku. Við fylgjumst þar með hvernig fátækir íbúar svæðisins eru útilokaðir frá notkun rafmagns í kjölfar einkavæðingarinnar, vegna mikillar hækkunar á kostnaði. En einnig fylgjumst við með andhófi íbúa svæðisins. Afleiðingar einkavæðingar lestarkerfisins í Bretlandi eru sömuleiðis skoðaðar, að miklu leyti út frá reynslu lestastjóra, sem hafa þurft að sætta sig við lægri laun, lengri vinnutíma og verri starfsskilyrði í kjölfar einkavæðingarinnar. Hinu fræga einkavæðingarhneyksli í Cochabamba, Bólivíu, er sömuleiðis gerð skil. Þar voru vatnsveiturnar eins og frægt er orðið seldar bandaríska auðhringnum Bechtel. Það leiddi til þess að stór hluti íbúanna hafði ekki aðgang að vatni, og var í ofanálag bannað að safna regnvatni. Með þrautsegri baráttu tókst alþýðu Cochabamba að fá þessa svívirðu dregna til baka, en sú barátta kostaði því miður mannslíf þar sem auðvaldsstjórnin lét hart mæta hörðu. Áhrifamesta og jafnframt mest sláandi frásögn myndarinnar er þó frá Filippseyjum. Í þeim hluta myndarinnar fylgjumst við með baráttu konu á miðjum aldri til að útvega nýrnaveikum syni sínum þá læknisaðstoð sem hann þarfnast. Heilbrigðisþjónusta Filippseyja var að miklu leyti einkavædd á tíunda áratugnum, sem hefur leitt til þess að fátækir íbúar landsins eru án heilbrigðisþjónustu. Samhliða þeirri þróun hafa risið dýrir einkaspítalar fyrir hina ríku, sjúkrahótel með tilheyrandi lúxus og dekri. Bæði í tilfelli Bólivíu og Filippseyja var þessi einkavæðing framkvæmd vegna þrýstings frá alþjóðastofnunum heimsauðvaldsins eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Myndin hefst á viðtalsbroti við Joseph Stiglitz, fyrrum aðalhagfræðings Alþjóðabankans. Hann kemur með áhrifamikinn punkt sem setur tóninn fyrir framhald myndarinnar, en þar ber hann saman þá efnahagsstefnu sem myndin ætlar sér að afhjúpa við nútíma hernað. Í umfjöllun um nútíma stríðsrekstur fáum við að vita allt um hernaðartaktíkina og alla þá tækni sem beitt er við að murka lífið úr fólki. Við getum meira að segja fengið að fylgjast með sprengjum falla yfir borgir fjarlægra landa í sjónvarpinu. Hins vegar fáum við minna að vita um allt það fólk sem lét lífið eða örkumlaðist af völdum stríðsrekstursins- það sama gildir um fórnarlömb Milton Friedmann hagfræðinnar.


Wednesday, May 27, 2009

Hardt og Negri

Í gærkvöldi fóru fram áhugaverðir fyrirlestrar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Félagið Níhil stendur um þessar mundir fyrir fyrirlestraröð, þar sem erlendir róttækir fræðimenn halda erindi. Sá fyrsti í þeirri fyrirlestraröð, sem ber yfirskriftina "Sagan er hafin á ný", samanstóð af erindum frá bandaríska bókmenntafræðingnum Michael Hardt og ítalska heimspekingnum og aktívistanum Antonio Negri. Voru erindi beggja hin áhugaverðustu. Hér mun ekki vera ráðist í neina kynningu á þessum ágætu fræðimönnum, en margir þekkja bókina "Empire" sem þeir skrifuðu saman. Erindi Hardt snérist um inntak kommúnismahugtaksins, en samkvæmt hans túlkun á kommúnisma felur það í sér sameign, sem andstæð sé bæði einkaeign og ríkiseign. Hann talaði um vanhæfni hins kapítalíska hagkerfis til að tryggja eignarhald yfir hugverkum og launa mönnum vinnu sem ekki væri efnisleg. Auðvaldskerfið hefði skapað sinn nýja banamann, sem í þessu tilfelli væru þær uppfinningar mannsins sem ekki er hægt að tryggja eignarrétt á. Antonio Negri fjallaði um í sínu erindi hvað fælist í því að vera kommúnisti í dag. Hann bennti réttilega á að sem kommúnisti væri maður andvígur ríkisvaldinu, og liti ekki á ríkiseign sem almenningseign. Nútíma ríkisvald er stéttavald, sem aldrei getur endurspeglað hagsmuni verkalýðs eða annarar alþýðu. Negri talaði sömuleiðis um að í stéttabaráttu nútímans þyrtir að losa sig við alla framvarðarsveitahugsun, því slíkur flokkur væri ekki alltaf í þeim tengslum við verkalýðsstéttina sem hann segðist vera, og talaði gjarnan máli hennar án þess að hafa umboð. Nánar verður fjallað um afstöðu okkar til framvarðarhugmyndina síðar á þessum vef. Þekktar eru hugmyndir Negri um upplausn þjóðríkisins vegna hinnar svokölluðu hnattvæðingar, þar sem lög þjóðríkisins nái ekki lengur utan um fjölþjóðleg stórfyrirtæki. Sósíalísku réttlæti þykir þó í kenningum Negri full mikið gert úr hinni svokölluðu hnattvæðingu. Ásýnd hins heimsvaldasinnaða kapítalisma hefur vissulega breyst þannig, að stórfyrirtæki spila stærra hlutverk en herir heimsvaldaríkjanna, þegar kemur að því að svegja efnahag snauðari landa undir sig. Þó eru landamæri þjóðríkja heldur betur staðreynd fyrir þá sem neyðast til að flýja heimalönd sín vegna átaka eða ofsókna. Um er að ræða formbreytingu en ekki eðlisbreytingu þar sem sama efnahagsaflið knýr hina svokölluðu hnattvæðingu áfram og kallað hefur á innrásir herja heimsvaldaríkja inn í vanþróuð lönd- auðmagnið.
-SJK

Thursday, May 7, 2009

Nokkur orð um stöðu hælisleitenda á íslandi

Á undanförnum mánuðum hefur ný hreyfing risið á Íslandi, hreyfing hælisleitenda.Á meðan hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar landsins voru uppteknir við að veiða atkvæði í aðdraganda kosninga, var lítið sem ekkert rætt um ömurlega stöðu hælisleitenda á Íslandi.Rúmlega 30 flóttamenn hafa beðið hér hugsanlegs brottflutnings til átakasvæða á borð við Írak, Afganistan og Kósovó. Í átökunum sem átt hafa sér stað í þessum þremur löndum, hefur íslenska ríkið tekið þátt, með svokölluðum friðargæsluliðum eða með öðrum stuðningi. Íhaldsstjórn Sjálfsstæðisflokksins studdi innrásirnar í Afganistan og Írak á sínum tíma, af sínum gamalkunna sleikjuskap við bandaríska heimsvaldastefnu. Sá stuðningur var réttlættur með ,,mannúðarsjónarmiðum“, eða að innrásirnar væru til þess gerðar að hjálpa íbúum þessara landa. Hver heilvita maður sér hins vegar að „hjálp“ er þarna rangnefni. Undanfarin 17 ár hefur 601 flóttamaður sótt um hæli á Íslandi. Af þeim hefur aðeins einn hlotið hæli. Aðeins 53 hafa hlotið tímabundin dvalarleyfi. Flóttamennirnir sem í dag bíða hugsanlegs brottflutnings, hafa beðið hér í 1.- 2. Ár. Þeir eru geymdir í niðurnýddu gistiheimili á Suðurnesjum. Á vefsíðu gistiheimilisins er meira segja staðhæft þess helsti kostur sé hversu stutt það sé frá Keflavíkurflugvelli, eða „aðeins 10 mínútna akstur“.Haft er eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, ritstjóra Stúdentablaðsins og einni af forsvarskonum hælisleitendahreyfingarinnar; „að flóttamennirnir hafi verið hér árum saman, en verið ósýnilegir- þeim hefur verið haldið fjarri Reykjavík, öllum fjölmiðlum og aktívistum. Það lýtur út fyrir að ríkisstjórnin hafi verið að reyna að fela þau, og viljað geyma þau þarna eins nálægt flugvellinum og mögulegt er.“ Hælisleitendurnir lifa á 2500 krónum á viku, sem er ekki einu sinni nóg fyrir rútuferðum til Reykjavíkur og til baka. Þeim er vanalega hvorki leyft að stunda vinnu né nám, auk þess að vera neitað um lágmarks heilbrigðisþjónustu. Hassan Akbari, sem flúði fótgangandi frá Afganistan, og gekk alla leið gegn um Pakistan, Íran, Azerbaijan, Tyrkland Rúmeníu, Búlgaríu og Grikkland, hefur nú búið á Íslandi í ár. Hann handleggsbrotnaði í Grikklandi í fyrra, og þarf á skurðaðgerð að halda en hefur ekki fengið neina læknisaðstoð á Íslandi. Slík framkoma af hálfu Íslenskra stjórnvalda er til skammar. Hræsni þeirra er botnlaus. Þeim þykir eðlilegt og sjálfsagt að íslenska fjármálaelítan kaupi upp fyrirtæki um allar jarðir. Þeim finnst það heilög skylda sín að vera klappstýrur bandarískrar heimsvaldastefnu á alþjóðavettfangi. Aftur á móti finnst þeim við hæfi að nýðast á fólki sem flýr heimalönd sín og leita hingað í neyð. Róttækar breytingar þurfa að eiga sér stað á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda og það strax.
M.B & S.J.K.